Bloggfærslur mánaðarins, september 2010
Friðland að Fjallabaki
20.9.2010 | 19:42
Friðland að Fjallabaki er árbók Ferðafélags Íslands fyrir árið 2010. Hún er eftir Ólaf Örn Haraldsson fyrir utan kaflann um náttúrufar sem er eftir þau: Ásrúnu Elmarsdóttur, Kristinn Hauk Skarphéðinsson, Kristján Jónasson og Sigmund Einarsson. Árbók 2010 fjallar um, eins og nafnið gefur til kynna, Friðland að Fjallabaki. Í henni er m.a. sagt frá útilegumönnum, fjárrekstrum um Fjallabaksveg, vörðum og sæluhúsum á Fjallabaksvegi nyrðri. Örnefna er getið og reynt að greina frá uppruna þeirra eftir því hægt er. Staðháttum er lýst sem og náttúrufari. Einnig er sagt frá fyrstu ferðum og rannsóknum á þessu svæði. Gönguleiðum, þekktar sem óþekktar, fjallferðum og vetrarferðum að Fjallabaki eru gerð skil. Loks er fjallað um ferðir í Landmannalaugar á 20. öld og um uppbyggingu Ferðafélag Íslands í Landmannalaugum.
Mér finnst hafa tekist vel til með þessa bók og eitt það fyrsta er vakti athygli mína við hana er hversu margar frábærar ljósmyndir prýða hana. Daníel Bergmann ljósmyndari tók ljósmyndir sérstaklega fyrir gerð bókarinnar en í henni eru einnig myndir eftir fjölda annarra ljósmyndara. Guðmundur Ingvarsson teiknaði kort er prýða bókina og hún ætti að nýtast öllu ferðafólki, hvort sem það ætlar að ferðast um gangandi, akandi nú eða bara í huganum.
Eftir að hafa skoðað bókina er Litla Skrudda orðin sannfærð um að Friðland að Fjallabaki sé eitt af fegurstu svæðum Íslands með stórbrotið náttúrufar og ekki laust við að komin sé fiðringur í hana að skoða þetta stórbrotna og skemmtilega landsvæði þar sem útilegumenn bjuggu fyrr á öldum.
Góðar stundir.
Bækur | Breytt 22.9.2010 kl. 20:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hver er Litla Skrudda?
13.9.2010 | 19:52
Litla Skrudda er skondin skrúfa sem sleit barnsskónum norður í Skagafirði enda Skagfirðingur að ætt og uppruna. Eftir nokkuð hefðbundna skólagöngu, fékk hún þá flugu í höfuðið að flytja "úr landi" eða alla leið til Vestmannaeyja. Bjó hún þar um árabil og unni hag sínum þar hið besta. Varð hún á þeim árum eldheitur stuðningsmaður ÍBV og er hún mikill Vestmannaeyingur í hjarta sínu. Einhvern veginn æxluðust svo hlutir þannig að Litla Skrudda flutti aftur upp á fastalandið og nú heldur hún sig á Selfossi. Litla Skrudda hefur lengstum unnið við verslunarstörf en stundum reynt að breyta til og prufa að vinna við eitthvað annað, en nei, ætíð snúið aftur "heim" í verslunarstörfin.
Litla Skrudda hefur hugsað sér að skrifa um ýmislegt sem tengist bókum enda eru bækur og bókalestur í miklu uppáhaldi hjá henni.
Góðar stundir.
Bloggar | Breytt 9.10.2010 kl. 13:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)