Hvar er Erlendur?
9.10.2010 | 12:55
Árið 1997 kom út skáldsagan Synir duftsins eftir Arnald Indriðason. Þessi bók rataði fljótlega í hendur mínar og eftir lestur hennar hef ég verið einlægur aðdáandi bóka Arnaldar. Á hverju ári, síðan þá, hef ég beðið eftir bók hans með mikilli eftirvæntingu. Flestar sögur Arnaldar fjalla um lögreglumennina Erlend Sveinsson og hans hundtryggu aðstoðarmenn, Elínborgu og Sigurð Óla. Þessar sögupersónur Arnaldar urðu fljótt heimilisvinir hjá mér og annarra aðdáanda hans.
Erlendur, þessi skemmtilega fúllyndi lögreglumaður, heillaði mig strax uppúr skónum. Það er eitthvað við Erlend sem fær mann til að elska hann, hata og vorkenna honum allt á sama tíma. Eftir því sem bókunum fjölgar fær maður betri innsýn í líf Erlendar og það hvernig hann varð þessi einfari er les bækur um mannshvörf og hrakninga manna hér á landi. Erlendur minnir mig stundum á einhvern en ég geri mér ekki grein fyrir hver það er, kannski er það bara þessi dæmigerði miðaldra, lokaði íslendingur. Nú hefur bruggið svo við að í síðustu tveimur skáldsögum Arnaldar hefur engin Erlendur verið og þar er skarð fyrir skildi. Játa ég það hér og nú að ég er virkilega farin að sakna Erlendar og því ætla ég rétt svo að vona að Arnaldur geri mér ekki þann óleik að koma með þriðju bókina í röð án Erlendar.
Því spyr ég: Arnaldur, hvar er Erlendur?
Góðar stundir.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.