Færsluflokkur: Bloggar

Að lokum

litla_skrudda.jpg Jæja gott fólk þá er komið að lokum þessa verkefnis, en bloggsíða Litlu Skruddu er verkefni í námskeiði er ber það virðulega heiti, Internetið í bókasafns- og upplýsingafræði. Námskeiðið er hluti af námi mínu í bókasafns- og upplýsingafræði við Háskóla Íslands.

Hvort haldið verði áfram að blogga hér verður tíminn einn að leiða í ljós, en einhvern veginn læðist sá grunur um heilabú mitt að það séu litlar líkur á því ... og þó aldrei að segja aldrei.

Að lokum óskar Litla Skrudda öllum gleðilegra jóla ... bókajóla.

Góðar stundir


Rafrænar bækur

tolvubok.gif Litla Skrudda var að enda við að lesa blaðagrein sem fjallar um rafrænar bækur eftir Hrafnhildi Hreinsdóttur og birtist í Bókasafninu árið 2001. Mjög svo athyglisverð og fróðleg blaðagrein þar sem Hrafnhildur er að velta fyrir sér kostum og göllum rafrænna bóka, hver framtíð þeirra muni verða og veltir því fyrir sér hver áhrif rafrænna bóka eigi eftir að verða á bókasöfn. Hrafnhildur skrifar um tilraunir sem gerðar hafa verið með rafrænar bækur, útgefendur þeirra og verð á þeim.  Hrafnhildur kemur líka inná hvað rafræn bók er og hvernig er hægt að nálgast þær, lesa og hvaða forrit eru hentug til þess.

Hrafnhildur veltir fyrir sér spurningum sem margir, já  og sennilega flest allir,  hafa spurt sig að síðan fyrsta rafræna bókin kom á markað. Í þeim flokki tel ég vera stærstu spurninguna, höfundarrétturinn og það hvernig við getum varið hann með kjafti og klóm þegar bókin er komin á rafrænt form á Internetinu.

Eins og áður hefur komið fram er blaðagreinin mjög fróðleg og er Litla Skrudda miklu fróðari um rafrænar bækur en áður og getur í sannleika sagt ekkert út á blaðagreinina sett, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Því þó svo að greinin sé skrifuð árið 2001 þá er hún í fullu gildi enn og vel þess virði að lesa.

Litla Skrudda mælir því eindregið með því að þið lesið þessa grein og hægt er að nálgast hana á  http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=2407452&issId=185250&lang=is

 Góðar stundir


Það dregur til tíðinda.

broskarl_a_lesa.png Loksins, loksins eru þau komin, tíðindin sem Litla Skrudda er búin að bíða eftir, með mikilli eftirvæntingu, í eitt stykki ár. Enda hefur ekki verið gert mikið af viti hér á bæ síðan tíðindin komu. Okey, okey það eru svo sem engin ný tíðindi og því síður bókatíðindi. Sem sagt bókatíðindi 2010 eru komin og er Litla Skrudda er búin að fletta þeim aftur á bak og áfram. Búin að sjá nokkrar eða kannski frekar margar, margar bækur sem hún gæti hugsað sér að eignast, lesa og  setja í bókahillurnar. Því einhvern veginn er það þannig að þótt bókahillurnar séu fullar, stór stafli á náttborðinu og eitthvað í geymslu, þá á maður aldrei nóg af bókum.

Góðar stundir.


Are Blog Here to Stay?

bloggtoo.jpgSíðasta haust las Litla Skrudda blaðagrein er heitir þvi virðulega nafni „Are Blogs Here to Stay?: An Examination of the Longevity and Currency of a Static List of Library and Information Science Weblogs“ eftir Kay Johnson. 

Spurningunni „Are Blog Here to Stay?“ hafði verið varpað fram og því ákvað höfundur að kynna sér hversu oft bloggsíður væru uppfærðar og hversu langlífar þær væru. Könnun var gerð á meðal bókasafnsfræðinga sem blogga á BlogBib. Könnunin tók yfir tímabilið frá janúar 2007 til apríl 2008 og skoðaði hún 89 bloggsíður sem reyndar fækkaði síðan í 82 og er greinin byggð á þeirri könnun.

Litla Skrudda getur ekki sagt að henni að henni hafi þótt greinin skemmtileg til aflestrar en viðurkennir jafnfram að það getur verið erfitt að skrifa skemmtilega grein um könnun af þessu tagi. Greinin er í raun svolítið þurr skýslugerð sem þarf ekki að koma á óvart, þar sem verið er að skrifa um könnunina og framkvæmt hennar. Þessi grein er um margt athyglisverð en alls ekki marktæk sem slík um bloggiðkun fólks almennt, þar sem höfundur einbeitir sér að bloggiðkun ákveðins hóps innan bloggheimsins. Því er ekki hægt að segja að þetta sé mjög vísindaleg könnun um hinn almenna bloggara, eða þá að nafnið á greininni ætti að vera annað. Og þar liggja einmitt að mínu mati hin stóru mistök höfundar.

Niðurstaðan eftir lestur greinarinnar er því sú að nafnið á henni er bandvitlaust og gefur manni til kynna að um sé að ræða úttekt á hinum stóra og víðfema bloggheimi.  

Hægt er að nálgast greinina á http://www.sciencedirect.com

Góðar stundir.


Spennandi

jokulsarlon.png Með því skemmtilegra er ég geri í vinnunni er að taka nýjar bækur uppúr kössunum. Þegar ég kom úr kaffi í einn daginn, fyrir dulitlu síðan, beið eftir mér forvitnilegur kassi. Hum, hugsa ég, hvað er nú að koma? Kíki á kassann ... aha bókasending ... gaman, gaman. Opna kassann varlega, gægist ofan í hann „nei vá“ muldra ég „þessi er flott“. Tek eina bók upp úr kassanum og skoða í krók og kring ... flott þessi maður. Tek restina af bókunum upp úr kassanum. „Hvað skyldi hún nú kosta“ spyr ég sjálfa mig. 2990,- 3990,- ...  best að gá. Æææ nei, ekki búið að skrá hana í kerfið hjá okkur ... bömmer.  Mikið væri nú gaman að skoða eina. Þyrfti nú kannski að hafa eitt sýnishorn af henni, æi ég tími því varla, hún verður bara rykfallinn og svo kemur öskufok og vesen. Tvístíg smá stund, en mig langar að skoða hana ... úbbs þarna kom alveg óvart smá gat á plastið utan um hana. Nei þetta er ekki hægt, hafa gat á plastinu ... ussum uss. Tek plastið utan af henni og byrja að skoða, nei vá maður flottar myndir, ekkert smá flottar

„Hvað ertu að skoða Radda?“ Heyrist sagt bak við mig. "Ha ég? jú sko ljósmyndabókina um Jökulsárlón"  .... "þrusuflott bók maður." 

Góðar stundir.


Hvar er Erlendur?

myrin.jpg

Árið 1997 kom út skáldsagan Synir duftsins eftir Arnald Indriðason. Þessi bók rataði fljótlega í hendur mínar og eftir lestur hennar hef ég verið einlægur aðdáandi bóka Arnaldar. Á hverju ári, síðan þá, hef ég beðið eftir bók hans með mikilli eftirvæntingu. Flestar sögur Arnaldar fjalla um lögreglumennina Erlend Sveinsson og hans „hundtryggu“ aðstoðarmenn, Elínborgu og Sigurð Óla. Þessar sögupersónur Arnaldar urðu fljótt heimilisvinir hjá mér og annarra aðdáanda hans.

Erlendur, þessi skemmtilega fúllyndi lögreglumaður, heillaði mig strax uppúr skónum. Það er eitthvað við Erlend sem fær mann til að elska hann, hata og vorkenna honum allt á sama tíma. Eftir því sem bókunum fjölgar fær maður betri innsýn í líf Erlendar og það hvernig hann varð þessi einfari er les bækur um mannshvörf og hrakninga manna hér á landi. Erlendur minnir mig stundum á einhvern en ég geri mér ekki grein fyrir hver það er, kannski er það bara þessi dæmigerði miðaldra, lokaði íslendingur. Nú hefur bruggið svo við að í síðustu tveimur skáldsögum Arnaldar hefur engin Erlendur verið og þar er skarð fyrir skildi. Játa ég það hér og nú að ég er virkilega farin að sakna Erlendar og því ætla ég rétt svo að vona að Arnaldur geri mér ekki þann óleik að koma með þriðju bókina í röð án Erlendar.

 Því spyr ég: „Arnaldur, hvar er Erlendur?“

 Góðar stundir.


Hver er Litla Skrudda?

litla_skrudda.jpg Litla Skrudda er skondin skrúfa sem sleit barnsskónum norður í Skagafirði enda Skagfirðingur að ætt og uppruna. Eftir nokkuð hefðbundna skólagöngu, fékk hún þá flugu í höfuðið að flytja "úr landi" eða alla leið til Vestmannaeyja. Bjó hún þar um árabil og unni hag sínum þar hið besta. Varð hún á þeim árum eldheitur stuðningsmaður ÍBV og er hún mikill Vestmannaeyingur í hjarta sínu. Einhvern veginn æxluðust svo hlutir þannig að Litla Skrudda flutti aftur upp á fastalandið og nú heldur hún sig á Selfossi. Litla Skrudda hefur lengstum unnið við verslunarstörf en stundum reynt að breyta til og prufa að vinna við eitthvað annað, en nei, ætíð snúið aftur "heim" í verslunarstörfin.

 

Litla Skrudda hefur hugsað sér að skrifa um ýmislegt sem tengist bókum enda eru bækur og bókalestur í miklu uppáhaldi hjá henni.

 

Góðar stundir. 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband